154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að fagna nálgun ráðherra og þeim breytingum sem hafa verið gerðar á þessu frumvarpi. Ég tel þær til bóta og nokkurn veginn komnar í efnislegt samræmi við það sem gerist á Norðurlöndunum. Engu að síður er umfjöllunarefni allsherjar- og menntamálanefndar mikið þegar kemur að þessu og sérstaklega þarf að fara yfir þá þætti sem snerta réttarríkið. Ég vil draga fram mína skoðun, ég tel þetta vera rétt skref. Það er mikilvægt að við tökum á þessum málum og verðum ekki einhverjir einfeldningar þegar kemur til að mynda að eftirliti með skipulagðri brotastarfsemi, svo að það sé sagt.

En ég vil taka undir það sem hefur komið fram hér áður og ég vil fá efnismeiri svör hjá ráðherra. Við sjáum að við erum næstlægst þegar kemur að lögreglumönnum per 100.000 íbúa. Við sjáum að báknið hefur þanist út undir forystu Sjálfstæðismanna en þeir hafa engu að síður forgangsraðað öðrum þáttum en (Forseti hringir.) réttarvörslunni og löggæslunni. Lögreglumönnum hefur ekki fjölgað síðan 2007 á þessu svæði en (Forseti hringir.) samt hefur afbrotum og meðferðum afbrota hér á þessu svæði fjölgað um 25% síðan 2007. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvað raunverulega verði gert til þess að fjölga lögreglumönnum.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill aftur ítreka að ræðutíminn er ein mínúta.)